Aðalfundur Tourette samtakanna var haldinn 26. mars síðastliðinn. Kosið var um tvö sæti í stjórn og voru Örnólfur Thorlacius og Elva Dögg Hafberg Gunnarsdóttir kosin í stjórn til tveggja ára. Íris Árnadóttir hætti í stjórn en hún hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir samtökin í fjölda ára m.a. sem formaður, gjaldkeri og ritari og sem fyrirlesari hefur hún haldið Tourette kynningar fyrir skóla og fagaðila einnig í fjölda ára. Tourette-samtökin þakka Írisi óeigingjarnt starf fyrir samtökin og óska henni velfarnaðar framtíðinni. Elísabet Rafnsdóttir var aftur kosin skoðunarmaður reikninga og til vara Jakob Þorsteinsson.
Á fundinum var kynnt nýtt merki Tourette samtakanna sem ungur listaháskólanemi, Bergur Gunnarsson Nordal, hannaði fyrir samtökin. Nýja merkið er skemmtileg fígúra sem er samsett úr stöfunum T og S í rúnaletri, en eins og sjá má þá er hún með hreyfikæk í hönd og fæti. Litirnir úr gamla merkinu voru látnir halda sér, þ.e. blágrár bakgrunnur og hvít táknmynd og letur. Bergur setti upp fyrir okkur nokkrar gerðir af merkinu, með og án stafa og línu, og verður skemmtilegt að geta notað þetta með mismunandi hætti í framtíðinni í efni frá samtökunum.
Strax á eftir aðaldfundi var Ólafur Thorarensen með fræðsluerindi sem fjallaði um PANDAS. Talið er að PANDAS sé undirflokkur Tourette þar sem Streptococcasýking veldur Tourette einkennum og áráttu- og þráhyggjuröskun. Ólafur er barnalæknir og sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum barna og vinnur á Barnaspítala Hringsins, í Domus Medica og í Malmö. Í erindinu komu einnig fram almennar upplýsingar um Tourette ásamt tölfræðilegum upplýsingum. Að fræðsluerindinu loknu sköpuðust góðar umræður þar sem Ólafur svaraði spurningum áheyrenda.