Fræðið þá aðila innan skólans sem hafa samskipti við barnið ykkar um TS, svo sem kennara, skólahjúkrunarfræðinga, ráðgjafa, íþróttaþjálfara og jafnvel aðra nemendur og foreldra þeirra. Því betur sem fólk í nærumhverfi barnsins nær að skilja eðli Tourette því betra. Hafi þessir aðilar ekki skilning á TS fá þeir ekki rétta mynd af barninu og getur það haft óæskileg áhrif á tilfinningar þeirra og framkomu gagnvart því.
Benda ætti skólastarfsfólki á bæklinga og fræðslurit Tourette-samtakanna sem eru hér á vefnum og hægt er að prenta út að vild. Á meðal þess efnis eru sérstakar leiðbeiningar fyrir starfsfólk skóla og fróðleikur fyrir heilbrigðisstarfsfólk.
Sýni kennarar barnsins skilning og útskýri vandann fyrir hinum börnunum eru góðar líkur á að skólasamfélagið taki barni með TS betur. Sú tilfinning að „vera öðru vísi“ getur reynst mörgum enn erfiðara viðureignar en TS sem slíkt, einkum á unglingsárum. Skilningsríkur kennari getur sömuleiðis átt ríkan þátt í að bæta sjálfsímynd og aðlögun barnsins. Best er að hjúkrunarfræðingur skólans fái vitneskju um TS greiningu barns og áhrif lyfjameðferðar ef barnið er á lyfjum. Allir þeir er koma að skólastarfi með barninu ættu að fræðast um TS og hvernig það hefur áhrif á líf tiltekins barns.
TS hefur ekki áhrif á greind og veldur ekki andlegri hnignun. Greindarvísitala þeirra sem hafa TS er ekkert frábrugðin því sem gengur og gerist í þjóðfélaginu. Hins vegar geta sum þeirra lyfja sem notuð eru við TS valdið sljóvgun og dregið úr námsárangri. Í sumum tilvikum verður að aðlaga framkvæmd greindarprófa að börnum með TS.
Ekki á að draga úr væntingum til barns sem hefur TS. Hafi foreldrar litlar væntingar til barnsins, má búast við að árangur verði í samræmi við það. Hvetja á barnið til að nýta hæfileika sína sem best og það mun sjálft setja sér háleit markmið.
Sumt fólk kann að túlka einkenni barns með TS sem hegðunarörðugleika og getur slíkur misskilningur staðið barninu fyrir þrifum. Flestum sem hafa TS tekst að yfirvinna þetta vandamál og geta þar með unnið öll störf eins vel og hver annar og verið góðir makar og góðir foreldrar.
Barn með TS getur átt erfitt með að einbeita sér og getur fundið fyrir þreytu og jafnvel sofnað í skólanum á meðan það er að aðlagast áhrifum lyfjameðferðar vegna TS. Hafi barnið umtalverða einbeitingarörðugleika ætti það að fá lengri tíma á prófum. Hafi barnið til dæmis kæk í handlegg ætti að leggja til við kennarann að barnið sitji þeim megin við skólafélagann þar sem félaginn verður ekki fyrir höggum vegna kæksins. Finnist barninu mjög óþægilegt að einhver sitji fyrir aftan það, er best að biðja um að það fái að sitja aftast í skólastofunni. Stundum þarf barn að sitja fremst, þar sem kennari þess getur haft augnsamband við það. Kippir og kækir spilla oft skrift barns með TS, en bæta má úr því með að láta það leysa verkefni munnlega og nýta upptökutækni.
Kennarar geta dregið úr erfiðum samskiptum barns með TS við skólafélaga og stríðni af þeirra völdum með því að vera nálægur og grípa tafarlaust inn í þegar þörf krefur, einkum í matarhléum og frímínútum. Ákjósanlegt er að skólahjúkrunarfræðingur hafi upplýsingar um barn með TS og tilvalið er að barnið fái að skjótast til hjúkrunarfræðingsins þegar líðan er slæm og það þarf að ná slökun.
Sum börn með TS eiga enn erfiðara í skólanum, vegna þess að þau eiga auk þess við að stríða ofvirkni og/eða námsörðugleika. Sumir kennarar reynast ekki þola hegðun barnsins í skólanum, þar sem einkenni þess eru truflandi. Áður fyrr var oft gripið til þess ráðs að útiloka barn með TS úr bekknum og því annað hvort kennt heima fyrir eða það sett í sérdeild eða sérskóla. Stundum eru börn með TS skilin út undan í skólanum, þeim er oft strítt, eru uppnefnd og hermt er eftir þeim, þar sem hegðun þeirra er hinum börnunum og kennurunum svo óskiljanleg. En tímarnir hafa breyst. Samkvæmt grunnskólalögum eiga börn sem „að dómi kennara og annarra sérfræðinga skóla og fræðsluskrifstofu þurfa sérkennslu vegna erfiðleika í námi, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar rétt á kennslu við sitt hæfi“. Meginstefna skal vera sú að kennslan fari fram í heimaskóla.
Foreldrar þurfa að komast að því hver réttur barns þeirra er í skólanum og ræða við aðra foreldra sem hafa staðið í baráttu fyrir rétti barna sinna. Einsetjið ykkur að vera öflugur talsmaður barns ykkar.