Ljóðið Dýrin inni í mér heitir á frummálinu The Animals Inside Me.
Höfundur þess, Justin Packer-Hopke, var 9 ára gamall þegar hann samdi það. Þá glímdi hann við einkenni sjúkdómsins Tourette (TS), og auk þess við athyglisbrest með ofvirkni (ADHD), áráttu- og þráhyggjuröskun (OCD) og þunglyndi, og réð ekki lengur við að vera í skóla vegna alls þessa. Í ljóðinu túlkar hann tilfinningar sínar til sjúkdómseinkennanna, vonleysi sitt og reiði en einnig framtíðarvon.
Ljóðið hefur verið notað víða um heim til jafningjafræðslu, til þess að kynna fyrir börnum sjúkdóminn TS+, þ.e. TS og fylgifiska, svo sem ADHD, OCD og þunglyndi, og til að hjálpa kennurum og uppalendum að skilja hvernig börnum með TS líður stundum. Ljóðið hefur einnig verið notað til kennslu í þjálfunarnámskeiðum fyrir sálfræðinga og við sálfræðimeðferð annarra barna til að hvetja þau til að lýsa reynslu sinni og tilfinningum.