Órólfur

Höfundur: Holly Niner

Panta bók

Sögubók fyrir börn um áráttu og þráhyggju (OCD)

Kalli getur ekki farið að sofa á kvöldin fyrr en hann hefur gert eitt og annað. Hann lagfærir hár sitt og raðar bókunum á skrifborðinu sínu. Hann spyr foreldra sína spurninga sem hann veit í raun svörin við. Hann gáir að ljósi undir rúminu sínu sem hann veit vel að er ekki þar, svo gáir hann aftur að því augnabliki síðar. Kalli veit að þessar athafnir eru í raun óþarfar og vill hætta þeim, en þráhugsanir sem gera hann kvíðinn sækja sífellt á hann.

Þegar foreldrum Kalla verður ljóst að hann er haldinn mun meiri áhyggjum og kvíða en börn yfirleitt, fara þau með hann til sérfræðings. Sá segir þeim að áráttu- og þráhyggjuröskun hrjái Kalla og að hjálp sé að fá.

Bókin fjallar um ungan dreng sem glímir við röskun sem veldur honum erfiðleikum í daglegu lífi. Bókinni er ætlað að hjálpa börnum að skilja hvað árátta og þráhyggja er svo þau geti sigrast á vandanum. Höfundurinn, Holly Niner, dregur hér upp einlæga mynd af barni sem lærir aðferðir til að bægja frá sér þráhyggjum, en Holly á sjálf son sem var greindur með röskunina. Áráttu- og þráhyggjuröskun (Obsessive compulsive disorder; OCD) tilheyrir flokki kvíðaraskana og er nokkuð algengt að beri á slíkum einkennum á meðal þeirra sem greindir eru með Tourette. Rannsóknir gefa til kynna að um helmingur þeirra sem eru með Tourette eru haldnir hamlandi kvíða af einhverjum toga. 

Órólfur var gefinn út af Tourette-samtökunum á 20 ára afmæli samtakanna í september 2011. Bókin heitir á frummálinu Mr. Worry: A Story about OCD og er ein 40 bóka sem hlaut viður-kenningu IBBY (The International Board on Books for Young People) árið 2005 sem framúrskarandi fræðslubók. 

Bókin er seld hjá Tourette samtökunum og lækkað verð hennar þar er aðeins 1.000.- krónur. Hægt er að panta bókina með því að smella á hnappinn "PANTA BÓK" hér fyrir ofan.  Athugið að sex af bókum þeim sem Tourette-samtökin hafa gefið út eru seldar saman í pakka á aðeins 5.000.- krónur (eldri bækurnar).