Stefna

Varðandi stefnu samtakanna þá hefur mest áhersla verið lögð á fræðslu og kynningu enda er vanþekking mikil og þar af leiðandi fordómar. Greinar hafa verið birtar í blöðum og þættir sýndir í sjónvarpi. Einnig hefur nokkur áhersla verið lögð á að halda fyrirlestra. Það bregst ekki að í hvert sinn sem vakin er athygli opinberlega á Tourette-heilkenni bætast nýir félagsmenn í hópinn og þá iðulega fólk sem ekki hefur haft hugmynd um af hverju vandamál þess stafar. Kennaraháskóli Íslands og Kennslumiðstöð Reykjavíkur hafa á námskeiðum sínum frætt stuttlega um þarfir TS-nemenda. Einnig hafa einstaklingar frá samtökunum og fagmenn haldið sérstaka kennslufyrirlestra í skólum. Mikið hefur unnist á stuttum tíma, en því fer víðs fjarri að nóg sé gert. Það er langt í land varðandi það að heilkennið njóti fullrar viðurkenningar og skilnings í skólakerfi, á vinnumarkaði og í samfélaginu öllu. Tourette-samtökin hafa að markmiði að mynda tengsl milli félagsmanna svo þeir geti styrkt sjálfa sig og aðra.