Tourette samtökin á Íslandi ForsíðaUm samtökinHafðu samband
Hvað er Tourette? Ábendingar Greinasafn Tenglar Veftré  
Stjórnarskýrslur
Hóparnir Tourette foreldrar og Tourette-Ísland eru starfandi á Facebook.
Á döfinni
<mars 2018>
þrmifilasu
2627281234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
2345678
Fréttabréf
English version
Skýrsla stjórnar 2015

Skýrsla stjórnar Tourette-samtakanna á aðalfundi 28. maí 2015  

Félagsmenn – Einstaklingar í samtökunum er nú um 275 talsins, sem er svipað og síðasta ár. Hver 
félagsmaður endurspeglar í flestum tilvikum einn með Tourette. Eins og undanfarin ár þá leitar fólk
helst upplýsinga og hefur samband við félagið gegnum Tourettevef, með tölvupósti og símhringingum.
Helst er að foreldrar barna með Tourette hafi samband og þar næst kennarar í grunnskólum.  

Fésbókin – Tourette-samtökin hafa nú nýlega stofnað síðu á Fésbókinni og næsta árið mun stjórnin 
vinna að uppbyggingu síðunnar. Tveir sjálfstæðir Tourettehópar eru á Fésbók, Tourette foreldrar, þar
sem nú eru innskráðir hátt í 250 aðilar, og Tourette-Ísland, þar sem nú eru tæplega 50. Ekki eru allir
í þessum hópum félagsmenn Tourette-samtakanna, en vafalaust allstór hluti hvors hóps. Meðlimir
hópanna taka þarna þátt í umræðum, leita ráða og miðla gagnlegum upplýsingum sín á milli.  

Fræðsla og kynningar á Tourette – Undanfarið ár hafa samtökin unnið sem fyrr að fræðslustarfi og 
útgáfu auk áframhaldandi kynningar og sölu á útgefnum bókum. Á Tourettevefnum getur hver sem er
prentað út af vefnum eftir þörfum bæði nýrri og eldri bæklingana og fræðsluritin okkar tvö, 10 og 20
ára afmælisritin. Varðandi námskeið, þá höfum við fengið leyfi hjá ADHD samtökunum eins og undanfarin
ár til þess að vísa okkar fólki á þeirra námskeið og við niðurgreiðum fyrir okkar félagsmenn á
sama hátt og ADHD gerir varðandi hvert og eitt námskeið. Reyndar hafa ekki margir nýtt sér þetta.   

Blásið var til fræðslukvölds í febrúar – Stjórnin bað Ólaf Thorarensen taugalækni barna að koma 
og halda fyrirlestur fyrir félagsmenn og svara fyrirspurnum, ef lágmarksþátttaka næði 20 manns. Kolla
heilsugúru ætlaði að útbúa léttan kvöldverð fyrir gesti, sem átti að kosta 1000 kr. á mann. Því miður
varð þátttaka ekki næg í þetta sinn og verður athugað með að halda þetta fræðslukvöld næsta haust.  

Skrifstofa samtakanna nýflutt  – Tourette-samtökin hafa frá árinu 2000 haft skrifstofu í Þjónustusetri 
líknarfélaga að Hátúni 10b, 9. hæð, ásamt fleiri líknarfélögum. Miklar breytingar hafa verið gerðar á
húsnæði í ÖBÍ blokkunum í Hátúni undanfarin tvö ár, bæði varðandi íbúðir, vinnustaði o.fl. ÖBÍ hafði
lengi sína skrifstofu þarna á 1. hæð en hefur nú flutt í eigið húsnæði í Sigtúni. Líknarfélögin sem verið
hafa í Setrinu á 9. hæð hafa nú fengið inni í nýuppgerðu skrifstofuhúsnæði á 1. hæð í Hátúninu og
eru nýflutt þangað inn.  

Verðlækkun bóka – Stjórnin ákvað á stjórnarfundi í janúar s.l. að lækka verð á flestum bókum sam-
takanna sem gefnar voru út til og með ársins 2011. Nú eru allar þær bækur seldar á einu verði, eða
sama verði og ódýrasta bókin hefur verið seld á, sem er aðeins 1000 kr. Einnig eru nú allar þessar
sex bækur seldar saman í pakka á 5000 kr. Verðlækkunin á bókapakkanum er nánast helmingsafsláttur.

Lækkunin hefur mælst vel fyrir og ýmsir skólar og bókasöfn hafa pantað og einnig margir
einstaklingar.   

Bókarþýðing á lokastigi – Þýðing bókarinnar Helping Your Anxious Child – 
A Step-by-Step Guide for Parents er nú á lokastigi eftir nokkra töf. Þýðendur
eru nú að lesa yfir hluta hvor annars og samræma og seinna í sumar verður
lesin próförk og bókin sett í umbrot. Þýðing krakkavinnubókarinnar sem fylgja
mun bókinni er í gangi og mun klárast með haustinu. Vonast er til að bókin fari
í prentun í september og komi út fyrir áramótin.    

F.h. Tourettestjórnar  
Sigrún Gunnarsdóttir 
formaður  

Útgefið efni


  tourette@tourette.is

Þessi vefur keyrir á vefumsjónarkerfi frá Xodus.is